Fótbolti

Ragnar búinn að semja við FCK

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ragnar er hér annar frá hægri.
Ragnar er hér annar frá hægri.
Varnarmaðurinn Ragnar Sigurðsson verður í dag kynntur sem nýr leikmaður FC Kaupmannahafnar en hann hefur þegar skrifað undir samning við félagið, samkvæmt heimildum Vísis.

Ragnar lék sinn síðasta leik með sænska liðinu IFK Gautaborg í gær er liðið tryggði sér sæti í fjórðungsúrslitum sænsku bikarkeppninnar. Liðið vann þá 1-0 sigur á Djurgården.

Samningur hans við félagið átti að renna út í lok leiktíðarinnar og því ákváðu forráðamenn Gautaborgar að selja hann nú í stað þess að missa hann frítt frá félaginu í haust.

Samkvæmt sænska blaðinu Aftonbladet greiðir FCK um sjö milljónir sænskra króna fyrir Ragnar, um 130 milljónir íslenskra króna.

Sömu heimildis Vísis herma að Gautaborg hafi á dögunum þegið boð frá belgíska félaginu Club Brugge upp á tæpar 100 milljónir en að þá hafi FCK komið inn í myndina.

Félagaskiptaglugginn í Danmörku opnar þann 1. júlí og mun Ragnar formlega ganga til liðs við FCK þá. Ragnar verður 25 ára í næsta mánuði en hann hefur verið á mála hjá Gautaborg í fjögur ár. Þar áður lék hann með uppeldisfélagi sínu, Fylki.

Ragnar á að baki sextán leiki með A-landsliði Íslands en hann er í landsliðshópnum sem mætir Dönum á laugardaginn.

Sölvi Geir Ottesen er einnig á mála hjá FC Kaupmannahöfn en bæði hann og Ragnar eru miðverðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×