Handbolti

Aron: Gekk gríðarlega vel þegar ég var síðast með liðið.

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Kristjánsson.
Aron Kristjánsson. Mynd/Daníel
Aron Kristjánsson skrifaði í dag undir þriggja ára samning við Hauka og mun taka aftur við þjálfun meistaraflokks félagsins. Haukar urðu þrisvar Íslandsmeistarar undir stjórn Arons frá 2008 til 2010.

„Það er vonandi að Haukarnir séu ánægðir með að fá mig til baka. Það gekk gríðarlega vel þegar ég var síðast með liðið. Haukar eru uppeldisfélagið manns og það var alltaf fyrsti kostur að koma aftur í Hauka," sagði Aron Kristjánsson eftir að hann skrifaði undir samninginn í dag.

„Ég held að við séum með fínan leikmannahóp og mikið af efnilegum strákum. Við erum líka með ágætis blöndu því það eru nokkrir eldri og reyndari með," segir Aron en er að leitast eftir því að styrkja liðið með örvhentum leikmanni.

„Við höfum verið svolítið að missa örvhenta leikmenn. Guðmundur Árni er á leiðinni til Silkeborg og það er frábært tækifæri fyrir hann að fara til eins af bestu liðunum í Danmörku. Það er ákveðinn gæðastimpill fyrir okkur. Einar Örn Jónsson var síðan að leggja skóna á hilluna," segir Aron.

„Við erum komnir með ungan Selfyssing sem heitir Árni Steinn Steinþórsson. Það er efnilegur strákur en hann er að vísu að stíga upp úr krossbandameiðslum. Við vonum að hann verði leikfær þegar deildin byrjar í haust. Við þurfum samt að fá einn örvhentan leikmann í viðbót. Við ætlum að reyna að stoppa í þau göt sem þarf að stoppa í en við munum byggja þetta upp að mestum hluta af þeim leikmönnum sem eru fyrir hjá félaginu. Að mínu mati er framtíðin björt," segir Aron.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×