Valskonur héldu sigurgöngu sinni áfram í bikarnum í gær þegar þær unnu 1-0 sigur á Breiðabliki í leik liðanna í 16 liða úrslitum Valitor-bikars kvenna á Kópavogsvellinum.
Valsliðið hefur unnið bikarinn undanfarin tvö ár og var að slá Breiðablik út úr sextán liða úrslitunum annað árið í röð en árið á undan vann Valur Breiðablik í sjálfum bikarúrslitaleiknum.
Bikarsigurinn á Breiðabliki boðar líka gott fyrir Valskonur því að síðustu fimm bikarmeistarar eiga það sameiginlegt að hafa slegið út Blika á leið sinni að titlinum, þ.e. allir bikarmeistarar síðan Breiðablik vann bikarinn síðast haustið 2005
Haraldur Guðjónsson, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var á leiknum á Kópavogsvelli í gær og náði þessum skemmtilegu myndum. Myndirnar má sjá í albúminu hér að neðan. Hægt er að sjá myndirnar stærri með því að smella á þær.

