Innlent

Finnur Ingólfs: Þetta er enginn spuni!

Erla Hlynsdóttir skrifar
Spuni er korgjarpur glæsigripur sem á framtíðina fyrir sér
Spuni er korgjarpur glæsigripur sem á framtíðina fyrir sér Mynd Óðinn Örn / Eiðfaxi
Finnur Ingólfsson, fyrrverandi ráðherra og Seðlabankastjóri, er stoltur eigandi hæst dæmda stóðhests í heimi, Spuna frá Vesturkoti. Hesturinn keppir á Landsmóti hestamanna sem nú stendur yfir á Vindheimamelum. Spuni fékk 10 í einkunn fyrir skeið í forskoðun 5 vetra stóðhesta og er aðaleinkunn hans eftir skoðunina 8,87 sem er heimsmet.

Finnur er að vonum ánægður með þennan frábæra árangur. „Þetta er enginn spuni," segir hann glaðbeittur í morgunsárið.

Heldur stutt er síðan Finnur byrjaði í hestamennskunni, um 2005, og hefur gengið vonum framar. Hann er nú, ásamt fjölskyldu sinni, kominn með eigin ræktun. „Þetta er fyrsti hesturinn okkar," segir Finnur um Spuna sem er enn ungur að árum. „Hann er bara krakki," tekur Finnur til orða en þar sem hesturinn er aðeins 5 vetra á hann sannarlega framtíðina fyrir sér.

Spuni í eigu Finns vekur verðskuldaða athygli á LandsmótinuMynd úr safni
Spurður hvort hann hafi átt von á slíkum gæðingi í upphafi ræktunar segir Finnur: „Það er aldrei hægt að segja til um það. Enda vorum við kannski ekkert að velta því fyrir okkur. Við vorum bara að hugsa um að rækta góðan hest," segir hann.

Það er óhætt að fullyrða að virði Spuna hafi margfaldast yfir nóttu með þessum glæsilegu dómum, en þetta er fyrsta keppnin sem hann tekur þátt í. Finnur veltir slíku þó lítið fyrir sér. „Ég hef ekki hugmynd um það. Enda skiptir það mig engu máli. Þú metur ekki virði barnanna þinna," segir hann.

Nafnið Spuni er heldur óhefðbundið. Spurður hvort hann hafi nefnd hestinn sjálfur segir Finnur að fjölskyldan hafi gert það saman. „Þó minnir mig að dóttir mín hafi fengið hugmyndina að þessu nafni," segir hann.

Spuni kemur undan Álfasteini frá Selfossi og Stelpu frá Meðalfelli sem er undan Oddi frá Selfossi og Eydísi frá Meðalfelli.

Í einkunn fyrir geðslag á Landsmótinu fékk hann 9,5 og 9,0 fyrir tölt og brokk, auk þess að hafa fengið 10 fyrir skeið.

Auk Spuna eru fleiri hestar fjölskyldunnar á mótinu en vart hægt að búast við viðlíka árangri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×