Eftir að ívilnanir til rafbílakaupa voru afnumdar um áramótin hefur hrun orðið í skráningum rafbíla. Á fyrstu mánuðum ársins var samdrátturinn á milli ára yfir áttatíu prósent.
Rafbílar voru þrjátíu prósent nýskráðra fólksbíla í júlí samkvæmt tölum Bílgreinasambands Íslands. Það var tæpum fimm prósentustigum minna en í fyrra. Skráningum rafbíla fækkaði um 43,3 prósent borið saman við júlí í fyrra. Það er hátt í tíu prósentustigum meira en almennur samdráttur í nýskráningum fólksbíla í mánuðinum sem nam 34,1 prósenti.
Tvinnbílar voru næstir en 23,5 prósent nýskráðra fólksbíla voru þeirrar gerðar. Skráningum þeirra fjölgaði um 58,8 prósent frá því í júlí í fyrra.
Nýskráðir dísilbílar voru 16,5 prósent skráðra fólksbifreiða í júlí og fækkaði þeim um 42,7 prósent frá því í fyrra. Fæstir nýskráðu bílanna voru bensínbílar, 7,4 prósent. Samdrátturinn í skráningum þeirra nam 66,7 prósent frá því í fyrra.
Það sem af er árs hefur nýskráningum fólksbíla fækkað um 37,7 prósent. Nýskráningum einstaklinga á bílum hefur fækkað um 48,1 prósent á fyrstu sjö mánuðum ársins og almennra fyrirtækja um svipað hlutfall. Samdrátturinn hjá ökutækjaleigum er umtalsvert minni, 29,1 prósent.