Erlent

Seldi litháíska stúlku í kynlífsþrælkun

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Danska lögreglan handtók manninn.
Danska lögreglan handtók manninn.
Tæplega fertugur litháískur karlmaður var úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald í Danmörku í gær fyrir að halda 19 ára gamalli litháískri stúlku í kynlífsþrælkun. Maðurinn verður að líkindum ákærður fyrir mansal, að því er danska blaðið Berlingske greinir frá.

Stúlkan var ginnt til að yfirgefa Litháen og var flutt til Kaupmannahafnar þar sem henni var komið fyrir í hrörlegum skúr, með kakkalökkum og ógeðslegri salernisaðstöðu. Hún var lokuð inni og seld vændiskaupendum.

Bréfið sem stúlkan skrifaði. Mynd/ Kaupmannahafnarlögreglan.
Stúlkan hafði í hreinni örvilnan reynt að skrifa skilaboð á miða sem hún ætlaði að læða undir dyrnar á skúrnum sem henni var komið fyrir í. Það tókst ekki. Stúlkan komst þó loks á Internetið og náði sambandi við vinkonu sína sem gerði lögreglunni viðvart. Út frá lýsingum hennar gat danska lögreglan séð staðsetningu hennar og frelsað hana.

Fyrir rösklega ári síðan voru fimm Lithár dæmdir fyrir mansal á Íslandi. Það er fyrsti dómur sinnar tegundar hér á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×