Innlent

Presturinn fékk far með þyrlunni til að komast í jarðaför

Landhelgisgæslan hafði í nógu að snúast í dag, en auk þess að fljúga með vísindamenn sótti hún óttaslegna franska ferðamenn og flaug með skrúðbúinn prest í jarðarför.

Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LÍF fór í loftið um klukkan korter yfir sjö í morgun með vísindamenn og lögreglumenn að kanna aðstæður nærri Kötlu, en þá var hringvegurinn farinn í sundur. En það var ekki eina verkefni gæslunnar áður en hún lenti aftur í Reykjavík um þrjúleytið.

Meðal annars flaug hún fram á 14 franska ferðamenn í sjálfheldu á umflotnum hól á svæðinu. Ferðamennirnir komust svo með þyrlunni í fjöldahjálparmiðstöð Rauða Krossins á Vík. Þyrluflugmaður hjá Landhelgisgæslunni segir í samtali við fréttastofu að þeir hafi verið fegnir þegar þeim var boðið far.

Og það var ekki það eina sem þyrlan sinnti í dag því prestur fékk far með þyrlunni frá Vík að Kirkjubæjarklaustri, líklegast sá fyrsti sem flogið hefur í fullum skrúða með gæslunni. Hann þurfti að mæta í jarðaför og því var honum boðið að fljúga með þyrlunni svo hann kæmist á réttum tíma í jarðaförina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×