Innlent

"Alltaf vitað að brúin hefði aldrei þolað meira en venjulegt sumarvatn“

Áhugaljósmyndari á Vík í Mýrdal segist ekki muna eftir öðrum eins vatnsflaumi í Múlakvísl, en hann náði ótrúlegum myndum af beljandi fljótinu og skaðanum sem það olli í morgunsárið í dag.

Vinur Þóris Kjartanssonar, framkvæmdastjóra Víkurprjóns og áhugaljósmyndara, vakti hann um sex leytið í morgun með fréttum af miklu hlaupi í Múlakvísl. Þórir dreif sig út með myndavél og fréttirnar stóðu heima, mikið flæmi var undir vatni, íshröngl út um allt og beljandi fljótið hafði hrifið brúnna með í heilu lagi, þó hlaupið hafi þá þegar verið í rénun.

„Brúargólfið með handriðum og öllu saman virtist hreinlega hafa flotið af brúarstöplunum í heilu lagi og lá bara við 45° horn niður við annan endann," segir Þórir um aðkomuna.

Þessi örlög brúarinnar komu Þóri þó ekki á óvart.

„Það hafa nú allir vitað frá upphafi að hún hafi varla þolað meira en venjulegt sumarvatn. Hún var svo óskaplega lág að menn skildu aldrei neitt í því af hverju hún var byggð svona. Hún hefði ekki þolað miklu minna hlaup en varð. Ef hún hefði verið í líkingu við brýrnar á Skeiðarársandi hefði hún staðið þetta ágætlega af sér."

Vegurinn við Þakgil var sömuleiðis í sundur, en brúin þar stóð ein og sér úti á aurnum. Þórir man ekki eftir öðrum eins vatnsflaum, en hann hefur búið í Mýrdalnum meiripart ævinnar.

„Mér skilst að þetta sé mjög svipað hlaupi sem kom 1955. Þá kom hlaup, annaðhvort vegna lítils eldgoss eða sigkatla að tæma sig. Mér skilst að það hafi verið svipað, nema að því leytinu til að það hlaup fór líka austur í Skálm og tók brúnna þar austan við Álftaver."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×