Erlent

Segja fregnir af andláti Jiang Zemin stórlega ýktar

Myndin er úr safni, eins og gefur að skilja, enda hefur lítið sést til leiðtogans fyrrverandi að undanförnu.
Myndin er úr safni, eins og gefur að skilja, enda hefur lítið sést til leiðtogans fyrrverandi að undanförnu.
Kínversk yfirvöld hafa borið til baka sögur sem gengið hafa fjöllunum hærra í Kína síðustu daga þess efnis að Jiang Zemin fyrrverandi leiðtogi landsins sé látinn.

Zemin er 84 ára að aldri og fregnir af andláti hans fóru að kvisast út eftir að hann mætti ekki á fund hjá kommúnistaflokknum sem búist var við að hann myndi mæta á.

Málið er þó allt hið dularfyllsta því ljóst er að kínversk yfirvöld hafa eftir að sögurnar fóru á kreik, lokað fyrir leitarvélar á netinu þannig að ekki er hægt að grennslast fyrir um málið. Ef nafn leiðtogans er slegið inn á leitarvélar í Kína kemur aðeins upp skilti sem tilkynnir mönnum að leitin sé ólögleg.

Þetta hefur reyndar haft þær aukaverkanir að landafræðinemar hafa lent í vandræðum, því nafnið Jiang þýðir einnig á eða fljót og því er erfitt þessa dagana að kynna sér á netinu hinar mörgu ár sem renna um landið. Þá hefur öllum bloggfærslum og fréttum sem minnast á málið verið snarlega eytt af yfirvöldum. Því hafa bloggarar tekið upp á því að skrifa nafn leiðtogans vitlaust til þess að komast hjá ritskoðuninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×