Erlent

Saksóknari í máli Strauss-Kahn ætlar ekki að víkja

Aðalsaksóknarinn í málinu gegn Dominique Strauss-Kahn í New York ætlar ekki að segja af sér þrátt fyrir harða gagnrýni. Lögfræðingar þernunnar sem sakar Strauss-Kahn fyrrverandi forstjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um nauðgun, segja að Aðalsaksóknari Manhattan, Cyrus Vance, hafi stórskaðað málstað hennar með því að leka út til fjölmiðla viðkvæmum upplýsingum um konuna.

Þeir krefjast því þess að hann víki nú þegar. Talsmaður saksóknaranns þvertekur hins vegar fyrir að sögusagnir sem ganga nú um konuna og eru fæstar mjög jákvæðar í garð hennar, séu runnar undan rifjum embættisins. Í gær reyndu lögfræðingar Strauss Kahn og saksóknarinn að ná sáttum í málinu en þeim fundi lauk án niðurstöðu.

Blöð á borð við New York Post hafa slegið því upp að konan sem um ræðir hafi starfað sem vændiskona og að hún hafi meira að segja haldið iðju sinni áfram eftir að hún komst undir verndarvæng lögreglunnar þegar hún kærði Strauss-Kahn. Lögfræðingar hennar hafa stefnt blaðinu fyrir meiðyrði og segja sögurnar kjaftæði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×