Formúla 1

Williams vann fyrsta og 100 sigurinn á Silverstone

Pastor Maldonado ökumaður Williams vann í GP2 mótaröðinni  á Silverstone í tvígang.
Pastor Maldonado ökumaður Williams vann í GP2 mótaröðinni á Silverstone í tvígang. Mynd: Glenn Dunbar/Lat Photographic
Williams liðið er á heimavelli á Silverstone brautinni eins og önnur Formúlu 1 lið, sem eru staðsett í Bretlandi. Níunda umferðin í Formúlu 1 verður á brautinni um helgina. Williams liðið vann sinn fyrsta sigur á brautinni árið 1979 og þann 100 í röðinni árið 1997.

„Silverstone er ein af mínum uppáhalds brautum og ég elska að fara þangað. Þá er mótið mikilvægt þar sem um heimavöll er að ræða hjá liðinu", sagði Rubens Barrichello um væntanlegt mót í fréttatilkynningu frá Williams.

Hann er sá ökumaður sem hefur ekið í flestum Formúlu 1 mótum og sagði í frétt á autosport.com í dag að samningur sem Williams hefur gert við Renault um að útvega vélar á næsta ári sé hvatning til að halda áfram með liðinu á næsta ári.

Í tilkynningunni frá Williams um næsta mót sagði Barrichello:

„Mótshaldarar hafa gert breytingar sem gætu orðið áhugaverðar í upphafi æfinga. Við vitum allir hvað beygjurnar heita, en ökumenn nota tölur frekar en nöfn í talkerfinu. Það er búið að færa rás og endamarkskaflann, þannig að við verðum að muna að Abbey sem ég kalla venjulega beygju 11 er núna beygja númer 1! Ég er sannfærður um að það verður ekki vandamál og ég hlakka til að mæta á svæðið og sjá nýju þjónustumannvirkin", sagði Barrichello.

„Það er erfitt verk framundan um helgina. Við notuðum ekki breytt útblásturskerfi í síðustu keppni, en munum prófa það á Silverstone. Það verður mikilvægt að setja nýja hluti í bílinn og vinna með þá til að sjá hvort þeir bæta bílinn."

Pastor Maldonado er liðsfélagi Barrichello hjá Williams og hann hefur keppt þar síðan 2007 og vann 2009 og 2010 í GP2 mótaröðinni.

„Ég tel að Silverstone sé mögnuð braut og á mikla sögu. Hún er hröð og nýi hluti brautarinnar er góð viðbót. Ég hef alltaf notið þess að keppa á Silverstone, frá fyrsta mótinu minu þar 2007", sagði Maldonado.

„Ég á líka góðar minningar af því mér hefur gengið vel og náð góðum úrslitum. Uppáhalds beygjan mín er Becketts af því hún er hröð. Við munum vinna hörðum höndum að því að bæta bílinn fyrir mótið og stefnum á stig eins og áður."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×