Erlent

Halda ásökunum gagnvart Strauss-Kahn til streitu

Lögmenn konunnar sem sakar Dominique Strauss-Kahn um gróft kynferðisofbeldi og tilraun til nauðgunar halda ásökunum hennar til streitu, en Strauss-Kahn var látinn laus úr stofufangelsi í dag og fékk sex milljón dollara tryggingu sína endurgreidda.

Strauss-Kahn virtist ánægður þegar hann gekk út úr dómsalnum í New York í dag. Erlendir miðlar fullyrða að saksóknarar muni neyðast til að fella niður ákæruna um gróft kynferðislegt ofbeldi og tilraun til nauðgunar því efast er um trúverðugleika konunnar.

Dagblaðið New York times fullyrðir að rannsakendur saksóknarans hafa margsinnis staðið hana að lygum og þá eru tengsl hennar við glæpamenn talin grunsamleg.

Rannsakendurnir hafa upplýst að strax daginn eftir að hún lagði fram kæruna hafi hún hringt í kunningja sinn sem sat í fangelsi og rætt við hann um fjárhagslegan ávinning af því að halda kærunni til streitu en símtalið var hljóðritað.

Þegar lögmaður konunnar gekk út úr dómshúsinu í dag sagði hann þó framburð umbjóðenda síns mjög trúverðugan og lýsti nákvæmlega hinum meintu grófu kynferðisbrotum Strauss-Kahns. „Hún hefur lýst þessari kynferðislegu árás mörgum sinnum, fyrir saksóknurunum og fyrir mér, og hún hefur aldrei breytt einu einasta atriði í frásögn sinni. Saksóknarinn veit að þetta var satt daginn sem það gerðist og að það er satt í dag," segir Ken Thompson, lögmaður konunnar.


Tengdar fréttir

Strauss-Kahn losnar líklega úr stofufangelsi í dag

Dominique Strauss-Kahn fyrrum forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins verður að öllum líkindum látinn laus úr stofufangelsi í dag og trygging fyrir lausn hans lækkuð eða jafnvel afnumin.

Strauss-Kahn laus úr stofufangelsi

Dominique Strauss-Kahn fyrrum forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var í dag látinn laus úr stofufangelsi og trygging fyrir lausn hans hefur verið afnumin. Ástæðan er að framburður herbergisþernunnar sem ásakaði Strauss-Kahn um kynferðislega árás á sig, virðist ekki halda vatni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×