Innlent

Brúarsmíði gengur vel - "Þetta er ekkert mál“

Boði Logason skrifar
Þegar brúin verður tilbúin þurfa trukkar ekki lengur að flytja fólk yfir fljótið
Þegar brúin verður tilbúin þurfa trukkar ekki lengur að flytja fólk yfir fljótið Mynd/Pjetur
„Þetta gengur bara mjög vel," segir Sveinn Þórðarson, brúarsmiður hjá Vegagerðinni, en hann vinur nú ásamt tuttugu og þremur öðrum að smíða bráðabirgðabrú yfir Múlakvísl.

Hlaupið úr Mýrdalsjökli á laugardaginn sópaði burt brúnni sem lá yfir jökulánna og er nú unnið að því að koma samgöngum í eðlilegt horf á svæðinu. Trukkar hafa hingað til flutt fólk yfir ánna en það hefur gengið þokkalega þó einhverjir hafi þurft að bíða á bökkum árinnar.

Reiknað er með að lokið verði við brúna í kvöld. „Við verðum búnir að setja stálbitana og gólfið upp í kvöld - en þá á eftir að sjóða undir grindinni. Ég veit ekki alveg hvað það það tekur langan tíma en það gæti tekið eitthvað fram á nóttina," segir Sveinn. Þó að brúin verði tilbúin í kvöld er þó töluverð vinna eftir áður en hægt verður að opna hana fyrir umferð. „Það verður samt á næstu dögum reikna ég með," segir Sveinn.

Aðspurður hvort að menn séu ekki þreyttir eftir mikla vinnutörn síðustu daga, segir Sveinn svo ekki vera. „Nei nei, þetta er ekkert mál. Við tókum allir hvíld í nótt og svo mættu menn bara ferskir hérna í morgun."

Þegar brúin verður tilbúin í kvöld eða nótt verður hægt að hleypa vatni undir hana. Það getur tekið einhverja daga því hemja þarf fljótið og stefna því undir brúna með bygginu grjótvarinna varnargarða. Sveinn segist búast við að byrjað verði að byggja varnargarðana í fyrramálið en fljótið og vatnsmagnið ráða hvenær þeir verða tilbúnir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×