Innlent

Ljúka við brúna annað kvöld

Unnið hefur verið hörðum höndum að því að byggja nýja brú yfir ána síðustu daga.
Unnið hefur verið hörðum höndum að því að byggja nýja brú yfir ána síðustu daga. Mynd/Pjetur
Reiknað er með að lokið verði við brúna yfir Múlakvísl annað kvöld, en þó er enn eftir töluverð vinna áður en hægt verður að opna hana fyrir umferð. Í fréttatilkynningu frá Vegagerðinni segir að brúarsmíðin hafi gengið vonum framar síðustu daga.

Þegar brúin sjálf er tilbúin verður unnt að hleypa ánni undir hana, þótt nokkur vinna verði eftir við frágang, en hemja þarf fljótið og stefna því undir brúna með byggingu grjótvarinna varnargarða. Í kjölfarið verður hægt að tengja veginn við brúna og koma umferð á. Ekki er á þessu stigi unnt að tímasetja nákvæmlega hversu langan tíma það tekur, en fljótið og vatnsmagnið ráða nokkru um það.

Nú þegar er hafin vinna við að tengja veginn við brúna að vestanverðu en jafnframt þarf að verja hana og veginn þeim megin. Einnig er nauðsynlegt að lagfæra langan varnargarð að austanverðu sem skemmdist í flóðinu auk þess sem það þarf að lengja hann töluvert og grjótverja til að hemja fljótið undir nýju bráðabrigðabrúna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×