Innlent

Selflutningar yfir Múlakvísl hafnar á ný

Frá selflutningum fyrir óhappið í gær.
Frá selflutningum fyrir óhappið í gær. Mynd / Pjétur
Byrjað er að selflytja ferðamenn yfir Múlakvísl en hlé var gert á því í gærdag eftir að rúta fór næstum á hliðina með um tuttugu farþega innanborðs í miðri ánni.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni var fenginn nýr bíll til verksins en hann er það sem kallast fjögurra öxla trukkur og nokkuð öflugri en rútan sem lenti í hremmingunum í gær.

Til stóð að hefja selflutninga klukkan níu í morgun en það tafðist þar sem enn átti eftir að semja við verktaka um greiðslur fyrir flutning ferðamanna yfir Múlakvísl. Samningar hafa nú náðst og því ekkert til fyrirstöðu að hefja flutningana.

Talsverð röð myndaðist við Múlakvísl í gær og í morgun en nú ættu flestir að komast sinna leiða.

Þá var hámarksöxulþungi á Dómsdalsleið og Fjallabaksvegi nyrðri hækkaður úr sjö tonnum upp í tíu tonn samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Ákveðið var að gera undantekningu með fólksflutningabifreiðar svo mögulegt væri að flytja ferðamenn þessa torfæru leið og um leið létta á fólksflutningum yfir Múlakvísl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×