Innlent

Líta brunann í Hringrás mjög alvarlegum augum

Borgaryfirvöld líta brunann sem varð í endurvinnslustöð Hringrásar í nótt alvarlegum augum vegna þeirra almannahættu sem eldsvoði á þessum stað getur valdið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Þar segir að Dagur B. Eggertsson formaður borgarráðs og embættismenn, fóru yfir atburðarrásina á fundi sínum í morgun, ásamt slökkviliðsstjóra og fulltrúum Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.

Starfsemi Hringrásar er starfsleyfisskyld samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og hefur starfsleyfi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá árinu 2008. Reglubundið eftirlit er með starfseminni.

Í liðinni viku fór fram eftirlit í stöðinni þar sem stærð gúmmístæðunnar sem kviknaði í var könnuð og reyndist hún þá innan marka starfsleyfis líkt og Vísir greindi frá í morgun.

Í kjölfar brunans sem kom upp á athafnasvæði Hringrásar síðla árs 2004 voru gerðar strangari kröfur til starfsemi fyrirtækisins m.t.t. eldvarna, mengunarvarna og öryggisviðbúnaðar og sönnuðu þær þrátt fyrir allt gildi sitt í nótt.

Borgarráð mun fjalla um þetta mál með tilliti til öryggismála og almannaheilla á fundi sínum 19. júlí.

Borgaryfirvöld vilja þakka Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins fumlaus viðbrögð við að ráða niðurlögum eldsins í nótt, svo og lögreglu og Samhæfingarmiðstöð Almannavarna í Skógarhlíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×