Innlent

Slökkviliðsmenn orðnir þreyttir

„Við erum á lokametrunum. Það er verið að vinna í haugunum og grafa aðeins niður til að ná að slökkva í því sem undir er. Hætta á að þurfa að rýma er yfirstaðinn," segir Jón Viðar Matthíasson, um brunann á athafnasvæði Hringrásar við Sundahöfn. Hann segir þá slökkviliðsmenn sem staðið hafa vaktina frá því nótt vera orðna þreytta.

Eldurinn gaus upp á þriðja tímanum og var allt tiltækt lið slökkviliðsmanna kallað út. Á meðfylgjandi myndskeiði sem Baldur Hrafnkell Jónsson, myndatökumaður fréttastofu Stöðvar 2 og Vísis, tók má sjá slökkviliðsmenn berjast við eldinn.

„Við hringdum út menn sem voru á frívakt þannig að sömu menn og voru í nótt hafa staðið vaktina og verða örugglega eitthvað áfram. Við reynum að leysa menn af því við þurfum auðvitað sinna annarri þjónustu. Við reynum alltaf að nýta mannskapinn sem best," segir Jón Viðar.

Þá segir Jón Viðar sína menn náttúrulega orðna þreytta. „Þetta er svakalega mikil og erfið vinna fyrir utan hvað þetta er mikil skítavinna þegar þú ert allur skítugur og andar að þér óheilnæmum lofttegundum. Þannig að þetta er dálítið íþyngjandi en við erum að komast fyrir horn og vonum að það séu ekki nema örfáir klukkutímar eftir.“


Tengdar fréttir

Gríðarmikill eldur í Sundahöfn

Gríðarlega mikill eldur kviknaði í dekkjum á svæði Hringrásar á fjórða tímanum í nótt. Allt tiltækt lið slökkviliðsins hefur verið kallað út og berst við eldinn. Segjum nánar frá eins skjótt og fréttir berast. Gríðarlega mikill eldur kviknaði í dekkjum á svæði Hringrásar á fjórða tímanum í nótt. Allt tiltækt lið slökkviliðsins hefur verið kallað út og berst við eldinn. Segjum nánar frá eins skjótt og fréttir berast.

Enn barist við eldinn

"Það er verið að berjast við þetta. Það er allt tiltækt lið á staðnum og jafnframt var aukamannskapur kallaður út. Þeir eru að vinna í þessu,“ segir slökkviliðsmaður sem Vísir talaði við í nótt. Eldur kviknaði á svæði Hringrásar í Sundahöfn um fjögurleytið í nótt.

Þakklæti til slökkviliðs og lögreglu efst í huga

Orsakir eldsins á svæði Hringrásar við Sundahöfn eru ókunnar. Þegar er hafin handa við að rannsaka eldsupptökin. Eldurinn kom upp í dekkjum á Hringrásarsvæðinu á þriðja tímanum í nótt.

Slökkvistarf gengið greiðlegar en 2004

Mun greiðlegar hefur gengið að ráða niðurlögum eldsins í Hringrás núna en árið 2004, segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu. Hann segir að aðalástæðan sé sú að eldsmatur sé mun minni núna en var þá.

Eldurinn hefur minnkað

Slökkviliðsmenn virðast hafa náð tökum á eldinum. Hann er miklu minni en hann var fyrr í morgun, segir Vilhelm Gunnarsson ljósmyndari Fréttablaðsins sem stendur vaktina við Hringrás í Sundahöfn.

Aðgerðarstjórn kölluð saman í Samhæfingarmiðstöðina

Aðgerðarstjórn höfuðborgarsvæðisins var kölluð saman í Samhæfingarstöðina í Skógarhlíð í morgun vegna eldsins hjá Hringrás í Sundahöfn. Almannavarnaástandi hefur ekki verið lýst yfir en starfsmenn stöðvarinnar eru í viðbragðsstöðu.

Myndasyrpa frá Hringrásarbrunanum

Mikill eldur gaus upp í stórri dekkjastæðu á athafnasvæði Hringrásar við Sundahöfn á þriðja tímanum i nótt og var allt slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu kallað út auk manna á frívakt. Gríðar mikinn og svartan reyk lagði frá eldinum, en svo vel vildi til að vindur var suðaustlægur í nótt og lagði reykinn á haf út, en ekki yfir byggðina eins og gerðist í samskonar bruna á sama stað árið 2004. Þá þurftu á sjötta hundrað manns að yfirgefa heimili sín. Starfsmenn fréttastofu stóðu vaktina og í meðfylgjandi myndaalbúmi má sjá myndir sem Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, og Heimir Már Pétursson, fréttamaður, tóku í nótt og í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×