Erlent

Stoltenberg aldrei verið vinsælli

Mynd/AFP
Forsætisráðherra Noregs hefur öðrum fremur verið í sviðsljósinu í kjölfar hryðjuverkanna. Hann hefur aldrei verið vinsælli og hefur hlotið mikið lof fyrir framgöngu sína. Viðbrögð hans allt frá byrjun hafa vakið athygli.

Stoltenberg var fyrst kjörinn á norska stórþingið fyrir Verkamannaflokkinn árið 1993. Hann varð iðnaðarráðherra í ríkisstjórn Gro Harlem Brundtland 1993 til 1996. Þegar Brundtland sagði af sér árið 1996 og Thorbjörn Jagland tók við forystu Verkamannaflokksins og forsætisráðuneytinu varð Stoltenberg fjármálaráðherra. Ríkisstjórnin sagði af sér í október 1997 og Verkamannaflokkurinn var í stjórnarandstöðu þar til í mars árið 2000. Þá tók Stoltenberg í fyrsta sinn við embætti forsætisráðherra Noregs, þrátt fyrir að vera þá varaformaður flokks síns. Flokknum gekk illa í þingkosningum ári síðar og Stoltenberg fór í framhaldinu gegn Jagland í formannskjöri í Verkamannaflokknum. Jagland hætti við framboð áður en til atkvæðagreiðslu kom. Stoltenberg hefur verið leiðtogi flokksins frá árinu 2002, myndaði ríkisstjórn með Sósíalistaflokknum og Miðjuflokknum árið 2005 og hefur verið forsætisráðherra síðan.

Heimsótt Útey árlega frá 1974

Um miðja síðustu viku gerði dagblaðið Verdens gang skoðanakönnun meðal Norðmanna sem leiddi í ljós að 94% aðspurðra sögðust ánægð með störf forsætisráðherrans. Hann segir það eðlilegt að hann hafi blandað saman hlutverki sínu sem forsætisráðherra og því að vera þátttakandi í sorginni, við að sýna að Norðmenn séu þjóð sem stendur saman. Hann þekkti marga sem létu lífið, enda hefur hann farið í Útey á hverju ári frá árinu 1974.

„En þetta snýst ekki um mig, heldur um þá sem létu lífið í stjórnarhverfinu og í Útey, og um þá sem eru alvarlega særðir og á spítala. Þetta snýst um alla þá sem voru á staðnum og hafa upplifað nokkuð sem enginn á að þurfa að upplifa.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×