Fótbolti

Gylfi frá í 2-3 vikur - missir líklega af landsleiknum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gylfi Þór í leik með Hoffenheim.
Gylfi Þór í leik með Hoffenheim. Nordic Photos / Bongarts
Gylfi Þór Sigurðsson, landsliðsmaður, er meiddur á hné og verður ekki með liði sínu, Hoffenheim, þegar það mætir Hannover í fyrstu umferð þýsku úrvalsdeildarinnar á laugardaginn.

Þetta kom fram í þýskum fjölmiðlum í morgun. Þar kemur fram að Gylfi hafi verið að glíma við meiðslin síðan í æfingabúðum liðsins í Austurríki fyrri í sumar.

Þar segir enn fremur að einhver bið gæti orðið á því að Gylfi geti spilað á ný. Ísland mætir Ungverjalandi í æfingaleik ytra á miðvikudaginn næsta og miðað við ummæli þjálfara Hoffenheim, Holger Stanislawski, er afar ólíklegt að hann nái þeim leik.

„Hann er hægt og rólega að koma sér aftur af stað,“ sagði Stanislawski við Rhein-Neckar-Zeitung. „En hann mun þurfa 2-3 vikur til viðbótar.“

Gylfi var markahæsti leikmaður Hoffenheim í þýsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð með níu mörk. Sá sem kom næstur, Vedad Ibisevic, skoraði átta mörk og er hann einnig meiddur auk fjögurra annarra leikmanna liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×