Erlent

Segjast hafa fundið gröf Filippus postula

Ítalskir fornleifafræðingar eru fullvissir um að þeir hafi fundið gröf eins af postulunum 12 í rústum fornrar kirkju í borginni Hierapolis í Tyrklandi.

Prófessorinn Francesco D´Andria sem stjórnað hefur uppgreftrinum segir í samtölum við ítalska fjölmiðla að gröfin sem þeir hafi fundið tilheyri Flippusi postula. Umgjörð grafarinnar og áletrunin á henni taki af allan vafa um það. Enn er ekki búið að opna gröfina en D´Andria segir að um mjög mikilvægan fornleifafund sé að ræða.

Filippus postuli boðaði fagnaðarerindið í Grikklandi og Sýrlandi en hann lést í kringum árið 80. Sögulegum heimildum ber ekki saman um hvernig hann lést. Sumar heimildir segja að hann hafi verið bæði krossfestur og hálshöggvin. Aðrar heimildir segja að hann hafi dáið á friðsaman hátt í nokkuð hárri elli.

Hierapolis þýðir hin heilaga borg en hún liggur í héraðinu Denizli í suðurhluta Tyrklands. Borgin er á heimsminjaskrá UNESCO.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×