Erlent

Meirihluti Vestur Evrópubúa skyldur faróanum Tutankhamun

Vísindamenn hafa komist að því að meirihluti Vestur-Evrópubúa er skyldur faróanum Tutankhamun sem ríkti í Egyptalandi fyrir 3.000 árum síðan.

Vísindamönnum við erfðarannsóknastöðina iGenea í Zurich í Sviss tókst að endurskapa erfðaefni eða dna Tutankhamun og í ljós kom að faróinn tilheyrði dna hópi sem kallast R1b1a2.

Yfir helmingur íbúa Vestur Evrópu tilheyrir einnig þessum erfðahópi sem gefur til kynna að þeir og faróinn eigi sameiginlegan forföður. Sá er talinn hafa lifað í Kákasusfjöllunum fyrir um 9.500 árum síðan. Fólk þaðan flutti svo til Evrópu fyrir um 7.000 árum síðan en hvernig erfðaefnið komst í fjölskyldu Tutankhamun er vísindamönnunum ráðgáta.

Það er mismunandi eftir löndum hve stór hluti íbúa Vestur Evrópulanda tilheyrir þessum dna hópi. Á Spáni tilheyra 70% íbúanna hópnum og í Frakklandi er hlutfallið 60%. Athyglisvert er að í Egyptalandi heyra aðeins 1% íbúanna til þessa dna hóps.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×