Viðskipti innlent

Seðlabankinn hækkar stýrivexti um 0,25 prósentur

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka vexti bankans um 0,25 prósentur. Vextir á viðskiptareikningum innlánsstofnana verða því 3,5%, hámarksvextir á 28 daga innstæðubréfum 4,25%, vextir á lánum gegn veði til sjö daga 4,5% og daglánavextir 5,5%.

Í tilkynningu á vefsíðu Seðlabankans segir að hækkun vaxta Seðlabankans er í samræmi við nýlegar yfirlýsingar peningastefnunefndar og markast af því að verðbólguhorfur til næstu tveggja ára hafa versnað enn frekar frá síðasta fundi nefndarinnar. Nýjustu hagtölur og uppfærð spá bankans sem birtist í Peningamálum í dag benda að auki til meiri vaxtar innlendrar eftirspurnar og atvinnu á þessu ári en búist var við í síðustu spá.

Á móti auknum vexti innlendrar eftirspurnar kemur að hræringar á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og vísbendingar um veikari hagvöxt í helstu iðnríkjum en búist var við gætu haft neikvæð áhrif á íslenskan þjóðarbúskap þegar frá líður. Hversu mikil þessi áhrif gætu orðið er afar erfitt að meta á þessari stundu. Aukinn kraftur í efnahagslífinu, sem birtist í uppfærðri spá bankans, felur þó í sér að lítil hætta er á að hófleg vaxtahækkun stöðvi efnahagsbatann, enda er mikilli lækkun skammtímaraunvaxta sem hefur átt sér stað undanfarna mánuði aðeins snúið við að litlum hluta.

Verðbólga hefur aukist verulega undanfarna fimm mánuði. Tólf mánaða verðbólga mældist 5% í júlí og undirliggjandi verðbólga, skilgreind sem vísitala neysluverðs án áhrifa neysluskatta, sveiflukenndra matvæla, bensíns, opinberrar þjónustu og vaxtakostnaðar, mælist 3,3% og hefur aukist úr 1,2% í janúar. Aukin verðbólga skýrist m.a. af lágu gengi krónunnar og verðhækkunum húsnæðis og olíu. Umsamdar launahækkanir munu auka verðbólguna enn frekar á næstunni þrátt fyrir lítils háttar styrkingu gengis að undanförnu. Miðað við núverandi gengi krónunnar eru horfur á að verðbólga aukist fram á næsta ár og að verðbólgumarkmiðið náist ekki að nýju fyrr en á seinni hluta ársins 2013.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×