Innlent

Ástandið óþolandi og auka þarf framboð á leiguhúsnæði

Pétur H. Blöndal, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins.
Pétur H. Blöndal, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins. Mynd/Brjánn
Tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa óskað eftir því að Félags og tryggingamálanefnd ræði bága stöðu leigjenda á næsta fundi sínum. Ástandið á leigumarkaðnum sé óviðunandi og auka þurfi framboð á leighúsnæði til muna.

Þetta segir Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem hefur ásamt Unni Brá Konráðsdóttur óskað eftir því að félags og tryggingamálanefnd ræði málefni leigutaka. Í samtali við fréttastofu sagði Pétur leigjendur vera ört stækkandi hóp og því ekki hægt að horfa framhjá stöðu þeirra. Milljarðir hafi farið til bjargar skuldsettum heimilum - til dæmis kostaði 110 prósent leið Íbúðalánasjóð 19 milljarða, að sögn Péturs. En litlu fé sé varið til að koma jafnvægi á leigumarkaðinn.

Í fréttum okkar í gær og í fyrradag greindum við frá því að bankarnir, fjármögnunarfyrirtækin og Íbúðalánasjóður eigi saman um 2300 íbúðir og eignir, sem teknar hafa verið eignarnámi. Lítill hluti þessara eigna er í útleigu. Sigurður Erlingsson, framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs sagði í gær að sjóðurinn þyrfti að flýta framkvæmdum við þær eignir sem nú eru á byggingarstigi til að koma til móts við ört hækkandi eftirspurn á leigumarkaðnum. Hann bjóst við því að í lok árs myndi sjóðurinn eiga um 2000 íbúðir, sem teknar hefðu verið eignarnámi.

Í bréfi þingmannana tveggja er óskað eftir því að Félags- og tryggingamálanefnd leiti eftir upplýsingum sem fyrir liggi um stöðu heimila sem eru á leigumarkaðnum, hvaða stuðnings þessi heimili njóta af hálfu ríkisvaldsins og sveitarfélaga og hvort ástæða sé til að breyta þeim stuðningi til samræmis við stuðning við aðrar fjölskyldur í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×