Sport

Bolt þjófstartaði og féll úr leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Usain Bolt trúði ekki sínum eigin augum í morgun.
Usain Bolt trúði ekki sínum eigin augum í morgun. Nordic Photos / Getty Images
Jamaíkumaðurinn Usain Bolt var dæmdur úr leik í úrslitum 100 m hlaups karla á HM í frjálsíþróttum í morgun fyrir þjófstart. Landi hans, Yohan Blake, fagnaði sigri á 9,92 sekúndum.

Þetta er mikið áfall fyrir Bolt sem ætlaði sér sigur í greininni en hann átti titil að verja. Á HM í Berlín fyrir tveimur árum hljóp hann á 9,58 sekúndum og stórbætti þar með heimsmetið í greininni. Er það almennt talið eitt mesta afrek íþróttasögunnar.

En Bolt vill sjálfsagt gleyma þessum degi sem fyrst. Hann fór einfaldlega of snemma af stað í ræsingunni og var umsvifalaust dæmdur úr leik, eins og reglurnar segja til um.

Hans helstu keppinautar, þeir Asafa Powell og Tyson Gay, voru ekki með í dag vegna meiðsla og var Blake sá eini sem hljóp undir tíu sekúndum.

Walter Dix frá Bandaríkjunum kom næstur á 10,08 sekúndum og Kim Collins, frá St. Kitts & Nevis, varð þriðji á 10,09.

Bolt þarf nú að bíða þar til á Ólymíuleikunum í Lundúnum á næsta ári til að vinna sín næstu gullverðlaun á stórmóti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×