Sport

Bolt örugglega í úrslitin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Usain Bolt í hlaupinu í morgun.
Usain Bolt í hlaupinu í morgun. Nordic Photos / Getty Images
Usain Bolt komst örugglega í úrslitin í 100 m hlaupi á HM í frjálsíþróttum í Daegu í Suður-Kóreu. Úrslitahlaupið fer fram klukkan 11.45 og verður í beinni útsendingu á Eurosport.

Bolt var fyrstur í sínum riðli í undanúrslitunum á 10,05 sekúndum. Það var þó landi hans frá Jamaíku, Yohan Blake, sem náði besta tímanum af öllum keppendum en hann hljópá 9,95 sekúndum.

Bolt verður á fimmtu braut í hlaupinu en Bandaríkjamaðurinn Walter Dix á fjórðu braut og Blake á þeirri sjöttu.

Bolt á heimsmetið í greininni en það setti hann á HM í Berlín fyrir tveimur árum. Þá hljóp hann á 9,58 sekúndum.

Tyson Gay og Asafa Powell eru næsthröðustu spretthlauparar sögunnar en hvorugur er þó með að þessu sinni. Powell á besta tíma ársins til þessa, 9,78 sekúndur, og Gay kemur þar á eftir með 9,79 sekúndur. Bolt á best 9,88 sekúndur á árinu.

Þeir Gay og Powell eiga báðir við meiðsli að stríða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×