Viðskipti erlent

Fundu risavaxna gullæð í Þýskalandi

Fundist hefur risavaxin gullæð í héraðinu Lausitz sem áður tilheyrði Austur-Þýskalandi. Talið er að verðmæti gullsins sé um 9 milljarðar punda eða tæplega 1.700 milljarðar kr.

Í frétt um málið í Daily Mail segir að þetta séu kærkomnar fréttir fyrir íbúa Lausitz enda er héraðið eitt það fátækasta í Þýskalandi og atvinnuleysi er mjög mikið eða um 20%. Nú má búast við einhverskonar „Klondike“ æði meðal íbúanna.

Félag sem staðið hefur fyrir borunum í héraðinu rakst á þessa gullæð á um 1.300 metra dýpi en um nær hreint gull er að ræða.

Þegar hefur verið auglýst eftir 800 námumönnum í Lauistz og búist er við að um tvöfalt fleiri verði ráðnir þegar vinnslan á gullinu hefst fyrir alvöru.

Þá segir í fréttinni að sama félag hafi fundið mikið magn af kopargrjóti á landamærum Póllands og Tékklands. Talið er að hægt sé að vinna um 2,7 milljónir tonna af kopar á því svæði. Þar sem heimsmarkaðsverð á kopar er rúmlega 6.000 dollarar á tonnið er ljóst að þarna er einnig um gífurleg auðæfi að ræða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×