Innlent

Tæplega þrjátíu prósent samdráttur í sölu lambakjöts milli ára

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Samdráttur í sölu á lambakjöti í júlí er 27,7 prósent milli ára.
Samdráttur í sölu á lambakjöti í júlí er 27,7 prósent milli ára.


Tuttugu og sjö prósent minna seldist af lambakjöti í júlí á þessu ári miðað við sama tíma í fyrra. Verslunarmenn segja þetta staðfesta kjötskort í búðum.

Margt áhugavert er að finna í samantekt Bændasamtakanna á framleiðslu og sölu búvara fyrir júlí á þessu árið borið saman við sölu og framleiðslu á sama tíma í fyrra.

Þarna kemur glögglega í ljós að í júlí á þessu ári seldist 27,7 prósent minna af lambakjöti en á sama tímabili í fyrra.

„Þetta er staðfesting á því sem við höfum haldið fram. Það var skortur á lambakjöti þennan mánuð ársins, það er alveg klárt," segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu.

Er þetta ekki skýr vísbendingum að það hafi verið skortur á kjöti í landinu og þið séuð að flytja of mikið út? „Nei, þetta þarf ekki að benda til þess. Nú höfum við haft þá reglu að við skoðum ekki hvern mánuð, enda getur verið mikill breyting í þessu milli mánaða. Það geta verið stórar pantanir, eða millifærslur, sem lenda sitt hvoru megin við mánaðarmót. Þannig að við höfum alltaf metið þetta til þriggja mánaða, eða hvern ársfjórðung," segir Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, formaður Samtaka sauðfjárbænda.

Á ársfjórðungnum er þetta 7 prósent samdráttur í sölu lambakjöts milli ára. Andrés Magnússon segir þetta samt óvenjulega mikinn samdrátt, þrátt fyrir að horft sé á ársfjórðunginn, en ekki bara júlí.

„Ég held að öllum beri saman um að svona mikill samdráttur í sölu hafi aldrei sést nokkurn tímann áður í sögunni," segir Andrés.

Hvernig útskýra bændur þessa minni sölu? Sigurgeir Sindri segir að minni sölu megi rekja til breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu. „Við sjáum að heildarkjötneysla er að dragast saman, neysla á lambakjöti aðeins meira en meðaltalið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×