Innlent

Forsætisráðherra ætlar að funda með forseta vegna gagnrýni hans

Erla Hlynsdóttir skrifar
Forsetinn og forsætisráðherrann munu líklegast eitthvað ræða saman á næstunni.
Forsetinn og forsætisráðherrann munu líklegast eitthvað ræða saman á næstunni. Mynd/ Anton.
Forsætisráðherra ætlar að eiga orð við Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands vegna gagnrýni hans á ríkisstjórnina í erlendum fjölmiðlum. Hún segir fráleitt að ríkisstjórnin hafi látið beygja sig í Icesave-málinu.

Haft var eftir Ólafi Ragnari í erlendum fjölmiðlum að ríkisstjórn Íslands hafi lagst í duftið fyrir kröfum Evrópusambandsins um að ríkissjóður Íslands tæki ábyrgð á Icesaveskuldunum.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sagði í fréttum okkar á mánudag að ekki væri hægt að líta öðruvísi á ummæli forsetans en sem beina árás á ríkisstjórnina.

Jóhanna lítur þessi ummæli einnig alvarlegum augum.

„Það er náttúrulega alveg ljóst að ef þetta er rétt eftir forsta haft þá er þetta mjög ómaklega vegið að ríkisstjórninni og fráleitt að halda því fram að ríkisstjórnin hafi látið aðrar þjóðir beygja sig. Þetta er auðvitað fráleitt," segir hún.

Forsætisráðherra lætur þar ekki staðar numið.

„Ég mun auðvitað ræða þetta við forseta við fyrsta tækifæri," segir Jóhanna.

Kemur þér á óvart að forsetinn skuli tjá sig á þennan máta?

„Já, ég verð að segja það," segir hún.

Þess utan vildi Jóhanna ekkert segja um gagnrýni forsetans á ríkisstjórnina.

„Ég ætla ekki að tjá mig meira um þessi viðbrögð forsetans. Ég mun þá ræða þetta frekar við hann," sagði Jóhanna eftir ríkisstjórnarfund í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×