Erlent

Svigrúm til aðgerða þrengra en þegar skuldavandinn kom upp

Christine Lagarde
Christine Lagarde
Framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins segir þörf á kraftmikillri samvinnu  til að bæta stöðu skuldsettra þjóða. Hópur sjö helstu iðnríkja heims mun hittast í Frakklandi um helgina til að vinna að samstilltu átaki.

Christine Lagarde framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sagði ræðu í London í dag að ríki heimsins þyrftu að grípa til róttækra aðgerða nú þegar til að leiðbeina hagkerfum landanna í gegnum brothættan bataveg. Hún mun ásamt fjármálaráðherrum og seðlabankastjórum G7 ríkjanna hittast í Marseille í Frakklandi í dag til að reyna að auka vöxt og kljást við vaxandi ógn af skuldavanda Evrópuþjóða og hægum efnahagsbata heimsins.

Hún segir svigrúm til aðgerða vera mun þrengra nú en þegar skuldavandinn fyrst kom upp á yfirborðið, en þrátt fyrir að möguleikarnir séu færri sé enn til staðar rétta leiðin til efnahagsbata. Ekki megi vanmeta hættuna á að efnahagsveikleiki haldi áfram að breiðast út og að lausafjárvandi muni versna. Þess vegna séu aðgerðir nú þegar mikilvægar svo bankar geti farið aftur að fjármagna atvinnustarfsemi og ýta undir vöxt.

Þá fagnaði Lagarde nýrri 447 milljarða dollara atvinnuáætlun Barack Obama þar sem ætlunin er að fjölga störfum og örva efnahagslífið . Það sé dæmi um aðgerð til að örva vöxt og atvinnusköpun til skamms tíma. Hins vegar sé nauðsynlegt fyrir Bandaríkin að endurskoða langtíma áætlanir til að halda sér á beinu brautinni til efnahagsbata.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×