Innlent

Hnífi beitt á bæjarhátíðinni Í túninu heima

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Töluverður erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og mikill viðbúnaður vegna bæjarhátíðarinnar Í túninu heima. Mynd tengist frétt ekki beint.
Töluverður erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og mikill viðbúnaður vegna bæjarhátíðarinnar Í túninu heima. Mynd tengist frétt ekki beint. Vísir/Vilhelm

Lögreglan var með mikinn viðbúnað í gær og í nótt vegna bæjarhátíðarinnar Í túninu heima í Mosfellsbæ. Hnífi var beitt í líkamsárás á hátíðinni á föstudag en fórnarlambið slapp við áverka. Gerandi er þó enn ófundinn og hefur lögregla ekki upplýsingar um viðkomandi að svo stöddu.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Þar segir að engar alvarlegar líkamsárásir hafi átt sér stað í nótt á hátíðinni þó nokkuð hafi verið um unglingadrykkju og stympingar milli ungmenna. Talsverður verkefnafjöldi hafi þó fylgt hátíðinni.

Berserksgangur á hóteli og maður með kylfu

Þá kemur einnig fram í dagbókinni að talsverður erill hafi verið á höfuðborgarsvæðinu í nótt. 

Rétt fyrir tíu í gærkvöldi var tilkynnt um mann með kylfu utan við krá í miðborginni að ráðast að fólki. Hann var handtekinn og fluttur á lögreglustöð þar sem skýrsla var tekin af honum. 

Upp úr ellefu var tilkynnt um mann sem gekk berserksgang á hóteli og hafði verið með ógnandi tilburði við starfsfólk. Að lokum nægði að vísa honum af vettvangi.

Nokkrir ökumenn voru stöðvaðir vegna gruns um að aka undir áhrifum. Þá var einn bílstjóri valdur að umferðaróhappi og reyndi að flýja af vettvangi. Viðkomandi fannst skammt frá skysastað og var vistaður í fangageymslu í þágu rannsóknar málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×