Innlent

Fyrrum sambýlismaður Sivjar neitar sök

Þorsteinn í héraðsdómi í morgun
Þorsteinn í héraðsdómi í morgun mynd/stöð2
Þorsteinn Húnbogason, fyrrverandi sambýlismaður Sivjar Friðleifsdóttur alþingismanns, segist saklaus af ákærum um brot á friðhelgi einkalífsins og brot á fjarskiptalögum. Ákæra gegn honum var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Þorsteinn er meðal annars grunaður um að hafa njósnað um fyrrum sambýliskonu sína, en þau voru í sambúð í tuttugu og sex ár.

Ákæran var gefin út í júní síðastliðnum en þar er Þorsteinn ákærður fyrir brot á fjarskiptalögum fyrir að hafa án heimildar komið fyrir svokölluðum ökurita með GPS tæki í bíl sem Siv hafði til umráða án vitneskju hennar og gat hann þannig fylgst með ferðum bílsins, sem er af gerðinni Skoda Octavia.

Hið meinta eftirlit stóð yfir á árinu 2010, en ökuriti er samkvæmt reglugerð sérstakur tækjabúnaður í bílum sem sýnir, skráir og geymir akstursupplýsingar.

Ökuritinn er síðan tengdur tölvu þannig að notandinn getur fylgst með ferðum bílsins aftur í tímann, frá því að ökuritanum er komið fyrir. Með GPS tengingu, eins og í umræddu tilviki, er hægt að fylgjast nákvæmlega með ferðum bílsins.

Rannsókn málsins stóð yfir hluta síðasta vetrar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og var Þorsteinn meðal annars boðaður í skýrslutöku og samkvæmt upplýsingum fréttastofu sóttur á heimili sitt af þónokkru liði lögreglumanna. Samkvæmt heimildum hefur Þorsteinn haldið því fram að hann hafi ekki notið sanngjarnrar málsmeðferðar hjá lögreglu.

Þorsteinn var síðan mættur ásamt verjanda sínum í Héraðsdóm Reykjavíkur í morgun þar sem málið gegn honum var þingfest. Dómari spurði Þorstein þá um afstöðu sína gegn ákærunni og lýsti hann sig saklausan af ákæruliðum.

Aðalmeðferð í málinu var ákveðinn þann ellefta október næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×