Innlent

Staðgengli borgarstjóra fundið nýtt starfsheiti

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Embætti borgarritara verður stofnað.
Embætti borgarritara verður stofnað. Mynd/ GVA.
Borgarráð samþykkti að stofnað verði nýtt embætti borgarritara. Samkvæmt tillögunni á borgarritari að hafa yfirumsjón með miðlægri stjórnsýslu og stoðþjónustu á vegum Reykjavíkurborgar. Hann á að vera staðgengill borgarstjóra og hafa aðsetur á skrifstofu hans.

„Undir embætti borgarritara heyri skrifstofa borgarstjóra og borgarritara, borgarhagfræðingur, fjármálaskrifstofa, mannauðsskrifstofa, mannréttindaskrifstofa, innkaupaskrifstofa, upplýsingatæknimiðstöð, upplýsingadeild og þjónustuskrifstofa. Ennfremur heyri rekstur Ráðhúss og Höfðatorgs undir embætti borgarritara," segir í fundargerð borgarráðs.

Borgarritarinn á að hafa forystu um endurskipulagningu miðlægrar stjórnsýslu með það í huga að einfalda og efla miðlæga stjórnsýslu, sameina skrifstofur og ná fram hagræðingu. Starfið mun verða auglýst og verður ráðið í það.

Regína Ásvaldsdóttir, sem var titluð skrifstofustjóri borgarstjórnar, hefur verið staðgengill borgarstjóra um nokkurt skeið. Hún sagði upp störfum fyrir skömmu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×