Innlent

Ánægður með nýja brú

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Nýja brúin yfir Hvítá hefur aukið ferðamannastraum á Flúðir í sumar
Nýja brúin yfir Hvítá hefur aukið ferðamannastraum á Flúðir í sumar
Starfsmenn Vegagerðarinnar voru því önnum kafnir við að klára frágang við brúnna þegar fréttastofu bar að garði í dag en á morgun munu vegamálastjóri og innanríkisráðherra klippa á borðann. Í tilefni dagsins munu heimamenn beggja vegna brúarinnar gera sér glaðan dag með því að ganga á móti hver öðrum og hittast á brúnni, haldið verður brúarskokk fyrir yngri kynslóðina og karlakór Hreppamanna ætlar að taka lagið.

Sveitastjóri Hrunamannahrepps segir brúnna hafa mikla þýðingu fyrir bæði Hrunamannahrepp og sveitirnar í kring. ,,Bæði gefur brúin aukna möguleika á að ferðast á milli staða, fyrir ferðamenn að ferðast á milli svæða og fyrir menningu og mannlíf" segir Jón Valgeirsson sveitarstjóri Hrunamannahrepps.

Hann segir umferð hafa aukist til muna í sumar. ,,Sérstaklega núna kannski í ágúst þegar vegurinn var tilbúinn þá urðum við varir við mikla aukningu á ferðamönnum bæði innlendum og erlendum sem eru að rúlla í gegnum þetta svæði" segir Jón.

Ferðamenn hafa mörg erindi en til dæmis hafa sveitungar í Bláskógarbyggð getað nýtt sér ríkið á Flúðum og íbúar í Hrunamannahreppi sækja í bankann hinum megin við Hvítá.

,,Menn geta alltaf fabúlerað með einhverjar hugmyndir en svo er það reynslan sjálf sem sker úr um hvort hugmyndin er að virka eða ekki og eins og maðurinn sagði þá svínvirkar hún" segir Jón.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×