Innlent

Formannsslagur í uppsiglingu?

Hanna Birna Kristjánsdóttir útilokar ekki að fara gegn Bjarna Benediktssyni í formannskjöri á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Hún segist þó ekki hafa tekið neina ákvörðun enn. Mikill þrýstingur er innan flokksins á mótframboð.

Boðað hefur verið til Landsfundar Sjálfstæðisflokksins dagana sautjánda til tuttugasta nóvember þar sem Bjarni Benediktsson núverandi formaður flokksins freistar þess að ná endurkjöri.

Nokkur umræða hefur verið meðal Sjálfstæðismanna síðan boðað var til fundarins um hvort Bjarni fái mótframboð. Enginn hefur lýst yfir framboði en sum nöfn hafa verið nefnd oftar en önnur.

Í sumar var gerð könnun þar sem fólk var spurt út í nokkur nöfn en auk Bjarna voru þau Hanna Birna Kristjánsdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson, Kristján Þór og Ólöf Nordal nefnd í könnuninni.

Niðurstöðurnar voru þó aldrei birtar í fjölmiðlum og óvíst hver lét gera könnunina.

Eftir því sem fréttastofa kemst næst hafa fjölmargir þrýst á Hönnu Birnu um að bjóða sig fram, en kona hefur til að mynda aldrei gefið kost á sér í formennsku í flokknum.

Hefur verið nefnt að í kringum síðustu sveitastjórnarkosningar hafi Hanna komið vel út úr könnunum, og virst njóta fylgis út fyrir flokkinn.

Í samtali við fréttastofu í dag sagðist Hanna Birna vissulega kannast við umræðuna meðal Sjálfstæðismanna og hún útiloki ekki að að hún muni gefa kost á sér til frekari trúnaðarstarfa fyrir Sjálfstæðisflokkinn í framtíðinni.

Að svo komnu máli hafi hún hinsvegar ekki tekið neinar ákvarðanir þar um.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×