Sport

Dansaði fyrir Usain Bolt

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Keníumaðurinn Ezekiel Kemboi fagnaði sigri sínum í 3000 metra hindrunarhlaupi á heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum í Suður-Kóreu vel og innilega. Kemboi sigldi fram úr keppinautum sínum á lokahringnum og tryggði sér gullið.

Kemboi, sem hafði gott forskot á lokakaflanum, hægði vel á sér og virtist ætla að njóta augnabliksins til hins ýtrasta. Þegar sigurinn var í höfn reif hann sig úr treyju sinni, tók skemmtilegan dans fyrir áhorfendur áður en hann fleygði treyjunni til fólksins í stúkunni.

„Ég dansaði fyrir vin minn Usain Bolt en líka fyrir fólkið í Suður-Kóreu sem er mjög vingjarnlegt. Ég upplifði það þegar ég fór í gönguferð um borgina (Daegu). Ég vildi endurgjalda þeim vinsemdina og skemmta þeim," sagði Kemboi við blaðamenn.

Kemboi, sem varði heimsmeistaratitil sinn í hindrunarhlaupinu, er ólíkur öðrum kenískum hlaupurum. Hann þurfti ekki að ferðast langa vegalegnd í skólann á tveimur jafnfljótum sem barn og var fyrst og fremst knattspyrnumaður fram á táningsár.

Hann vann til sinna fyrstu verðlauna á Samveldisleikunum árið 2002 þegar hann fékk silfurverðlaun. Honum þótti svo mikið til leikanna koma að hann skýrði son sinn í höfuðið á gestgjöfum leikanna, Manchester.

Kemboi stefnir á að verja gullverðlaun sín á HM í Moskvu árið 2013. Kemboi, sem er 29 ára, hefur þó áform um að hætta að keppa í hindrunarhlaupi í framhaldinu og gerast maraþonhlaupari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×