Innlent

Framkvæmdir Orkuveitunnar orsaka skjálftahrinu

Mynd/Vilhelm
Tæplega þrjú hundruð skjálftar hafa mælst á Hellisheiði frá miðnætti. Mikil skjálftavirkni er ekkert til að hafa áhyggjur af, segir talsmaður Orkuveitunnar.

„Við erum hér að dæla niður affallsvatni frá virkjuninni. Þegar við erum búin að nýta gufuna til að framleiða rafmagn og heitt vatn þá tökum við affallsvatnið og dælum því aftur niður í jarðhitageyminn. Það er þessi vatnsdæling sem að er að koma af stað þessari hrinu smá skjálfta sem að sjást á mælunum" segir Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur.

Skjálftarnir hafa allir verið undir þremur á Richter. Eiríkur segir vinnumenn á svæðinu lítið sem ekkert hafa fundið fyrir þeim. Ástæða fyrir aukinni skjálftavirkni síðustu daga er að búið sé að finna sérstaklega stórar sprungur og þegar vatnið fer niður í þær virkar það eins og smurning þannig að sprungurnar hnikast til.

„Við erum nýbúin að koma upp fimm nýjum skjálftamælum  hér til að geta fylgst með því hvernig okkur gengur við að koma vatninu niður. Það er kannski ein ástæðan fyrir því að þetta mælist miklu betur heldur en áður,“ segir Eiríkur.

Um 350-400 lítrar af vatni renna niður á hverri sekúndu af 70-80 gráðu heitu vatni í fjórar borholur og Eiríkur segir að enn eigi eftir að tengja eina holu í viðbót og því von á frekari titringi.

„Við lítum svo á að þetta sé merki um það að okkur sé að takast að koma vatninu farsællega niður í jarðhitageyminn aftur og á meðan skjálftarnir eru ekki stærri er engin ástæða til að hafa áhyggjur," segir Eiríkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×