Innlent

Skilnuðum fjölgaði ekki í kreppunni

Mynd/AP
Fyrir hver 2,7 pör sem giftu sig á síðasta ári skildu ein hjón. Þrátt fyrir það eru engin teikn um það að hjónaskilnuðum hafi fjölgað í kreppunni.

Alls voru framkvæmdar 1547 hjónavígslur í fyrra, en 563 hjón skildu á sama tíma, að því er kemur fram í nýjum tölum hagstofunnar. Það merkir að fyrir hver 2,7 pör sem giftu sig í fyrra, þá skildu ein hjón.

Þrátt fyrir það virðist skilnuðum ekkert hafa fjölgað í kreppunni. Af hverjum þúsund hjónum gengu 10,5 í gegnum lögskilnað í á síðasta ári, en það er aðeins örlítið hærra hlutfall en árið 2007, og lægra hlutfall en allan fyrri hluta áratugarins.

Miðað við hlutfall og lengd þeirra hjónabanda sem enda með skilnaði eru hins vegar 38 prósent líkur á því að einstaklingur sem var giftur í upphafi árs skilji einhverntímann í hjónabandinu.

En burt séð frá skilnuðum og hvort sem það er kreppunni að kenna eða ekki, þá virðast hins vegar færri pör vilja fá á sig hnapphelduna síðan efnahagshrunið skall á árið 2008. Fyrir hverja þúsund íbúa voru haldin á bilinu 5 til 6 brúðkaup allan fyrri hluta áratugarins, en eftir að kreppan skall á er hlutfallið komið niður fyrir 5 brúðkaup á hverja þúsund. Líklegast er ekki hægt að útiloka að efnahagsástandið spili þar inn í, enda kostar hið fullkomna brúðkaup skildinginn ef vel á að vera.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×