Innlent

Þingmenn takast enn á um aðlögun

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Stjórnarandstæðingar telja að Evrópusambandið sé að krefjast aðlögunar íslensks stjórnkerfis að kerfi sambandsins, með skýrslu sinni um landbúnaðarmál. Tekist var á um hvað skýrslan þýddi og hvort aðlögunarferlis væri krafist fyrir mögulega samþykkt í þjóðaratkvæði eða ekki.

Utandagskrárumræða var um málið á þingi í gær og var Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, málshefjandi. Hann sagði skýrslu ESB, sem lögð var fram í síðustu viku, sýna að sambandið teldi Íslendinga ekki nægilega vel undir viðræður búna, þar sem ekki væri skýrt kveðið á um hvernig aðlaga ætti íslenskt stjórnkerfi að því evrópska.

Jón Bjarnason, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, sagði stærstu tíðindi umræddrar skýrslu vera þau að ESB setti Íslendingum opnunarskilyrði sem uppfylla þyrfti áður en samningar um landbúnað og dreifbýlisþróun hæfust. "Það er ekki að sjá að Evrópusambandið muni taka tillit til hugsanlegra krafna Íslands um styrkjakerfi sem hentar okkur betur en kerfi Evrópusambandsins."

Jón taldi ýmislegt óskýrt í skýrslu ESB og hann mundi krefja sambandið skýringa á því hve ítarleg áætlun Íslands þyrfti að vera áður en til viðræðna kæmi.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sagði ljóst að kröfurnar væru ekki mjög skýrar. Skýringin á því væri að ESB setti það nánast í hendur Íslendinga sjálfra með hvaða hætti áætlunin yrði tímasett.

Össur fullyrti, sem og fleiri stjórnarliðar, að kröfurnar væru í fyllsta samræmi við skilyrði Íslendinga fyrir viðræðunum. Krafan snerist ekki um kröfu um aðlögun áður en samningur yrði borinn undir þjóðina; þvert á móti væri verið að ræða um hvernig ætti að laga íslenskt stjórnkerfi að kerfi ESB ef og þegar þjóðin hefði samþykkt samning í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði það liggja fyrir

að ef land sækti um aðild að sambandinu yrði það að undirgangast reglur þess.

Hann spurði Jón Bjarnason að því hvort hann gerði sama greinarmun og Össur á því að Íslendingar þyrftu að hafa starfsfólk á hliðarlínunni sem hlaupa mundi inn í tómar byggingar yrði aðild samþykkt.

Jón svaraði því ekki beinum hætti, en sagðist reiðubúinn til að fara til Brussel ef með þyrfti til að fá skýringar á skýrslu ESB.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×