Innlent

Skjálftahrina í toppgíg Öræfajökuls

Jarðskjálftahrina sem varð í Öræfajökli fyrir þremur vikum hefur vakið athygli jarðvísindamanna og spurningar um hvort þetta stærsta eldfjall Íslands bæri á sér á næstunni.

Öræfajökull rís 2110 metra upp yfir sjávarmál og er ekki bara hæsta fjall Íslands heldur einnig stærsta eldfjallið. Á fjögurra daga tímabili í síðasta mánuði, frá 21. til 24. ágúst, mældust þar átta jarðskjálftar með upptök í toppgíg fjallsins, og var sá stærsti 2,2 stig.

Ari Trausti Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir í viðtali við Stöð 2 að enginn sé að hrópa ,,úlfur, úlfur" en jarðskjálftar séu afar sjaldgæfir í Öræfajökli. Ekki sé gott að segja hvað þetta þýði en ljóst sé að Öræfajökull sé lifandi eldfjall.

Skjálftahrinan nú er aðeins sú þriðja sem mælst hefur í Öræfajökli frá upphafi stafrænna skjálftamælinga fyrir tuttugu árum en hinar voru í desember árið 2005 og í september 2008. En má setja þessar hræringar nú í samhengi við aukna eldvirkni með gosunum í Grímsvötnum og Eyjafjallajökli?

Ari Trausti segir þekkt að ákveðnir púlsar virðist koma í eldvirkni og slíkt virðst vera að gerast nú í Vatnajökli og nágrenni hans. Því sé líklegt að þar verði fleiri eldgos, til dæmis á næstu 40-80 árum. Ari segir langt í frá útilokað að Öræfajökull geti bært á sér enda sé hann meðal virkra eldfjalla Íslands.

Öræfajökull hefur tvívegis gosið eftir að land byggðist, 1362 og 1727. Fyrra gosið eyddi heilu héraði og byggðin sem reis á rústunum fékk nafnið Öræfi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×