Innlent

Fundað um hvalveiðar í Washington

Fulltrúar íslenskra stjórnvalda funduðu í gær með bandaríska utanríkisráðuneytinu í Washington til að ræða hugsanlegar refsiaðgerðir Bandaríkjamanna vegna hvalveiða Íslendinga. Obama Bandaríkjaforseti hefur frest þar til um næstu helgi til að tilkynna þinginu hvort að gripið verði til aðgerða.

Viðskiptaráðherra Bandaríkjanna fór fram á það í júlí að Barack Obama Bandaríkjaforseti beiti Íslendinga refsiaðgerðum vegna hvalveiða. Hann leggur til að gripið til diplómatískra aðgerða gegn Íslandi. Slíkar aðgerðir fela í sér að dregið yrði úr samskiptum þjóðanna.

Til að bregðast við þessu og upplýsa bandarísk stjórnvöld um stefnu Íslands í hvalveiðimálum funduðu fulltrúar íslenskra stjórnvalda í Washington í gær með bandaríska utanríkisráðuneytinu.

Þeir Tómas Heiðar, aðalfulltrúi Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu, og Hjálmar Hannesson, sendiherra Íslands í Washington, sátu fundina fyrir Íslands hönd og hittu þeir einnig starfsmenn beggja öldungadeildarþingmanna Alaska.

Tómas Heiðar segir fundina hafa verið vinsamlega en þeir hafi lagt áherslu á að hvalveiðar Íslendinga séu fyllilega löglegar og sjálfbærar.

Jafnframt hafi þeir bent á að bandarísk stjórnvöld séu ekki sjálfum sér samkvæm þegar þau gagnrýna veiðar Íslendinga á langreyði en óska á sama tíma eftir stuðningi Íslands og annarra aðildarríkja Alþjóðahvalveiðiráðsins við veiðar Bandaríkjamanna á norðhval frá Alaska. Fyrir liggi að langreyðarveiðar Íslendinga séu sjálfbærar engu síður en norðhvalsveiðar Bandaríkjamanna.

Obama Bandaríkjaforseti hefur frest þar til um næstu helgi til að tilkynna hvort að gripið verði til aðgerða gegn Íslendingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×