Innlent

Verkfall félagsráðgjafa hefur áhrif á fjárhagsaðstoð

Félagsráðgjafar hjá borginni ætla í verkfall eftir tvær vikur ef ekki tekist að klára kjarasamninga fyrir þann tíma. Þeir telja sig búa við lakari kjör en þeir sem sinna sambærilegum störfum hjá öðrum sveitarfélögum. Verkfallið myndi hafa áhrif á greiðslur fjárhagsaðstoðar til einstaklinga.

Félagsráðgjafar hjá Reykjavíkurborg samþykktu í gær að leggja niður störf 26. september ef ekki hafa tekist kjarasamningar fyrir þann tíma. Rúmlega hundrað félagsráðgjafar starfa hjá borginni. Flestir starfa hjá þjónustumiðstöðum, Barnavernd Reykjavíkur og á skrifstofu Velferðarsviðs. Verkfall myndi hafa nokkur áhrif.

Bryndís Ósk Geirsdóttir, talsmaður félagsráðgjafa hjá Reykjavíkurborg, segir verkfall þýða að sú starfsemi sem er á könnu félagsráðgjafanna lamist svolítið. Það sé helst fjárhagsaðstoð til einstaklinga Þannig myndi verkfallið hafa áhrif á greiðslur fjárhagsaðstoðar til einstaklinga og barnaverndarmálum yrði ekki sinnt í sama mæli og nú er. Verkfallið hefði einnig áhrif á húsnæðisúthlutun hjá Félagsbústöðum.

Bryndís segir félagsráðgjafa í borginni búa við lakari kjör en þeir sem sinna sambærilegum störfum í öðrum sveitarfélögum. Til að mynda sé sjötíu þúsund króna munur á þeim og félagsráðgjöfum í Hafnarfirði. Hún segir kröfur þeirra fyrst og fremst vera þær að gengið verði á endurmati á starfsmati sem félagsráðgjafar hafa beðið eftir síðan í apríl.

Ekki sé hægt að samþykkja nýja kjarasamninga fyrr en það liggur fyrir. Þá vilja þeir sjá töluverða hækkun á lágmarkslaunum en þau eru nú um þrjú hundruð þúsund. Krafan sé að lágmarkslaun hjá þrjátíu ára gömlum félagsráðgjafa verði 440 þúsund krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×