Fótbolti

Sjálfsmark Haraldar banabiti Start í undanúrslitum norska bikarsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haraldur Freyr Guðmundsson.
Haraldur Freyr Guðmundsson. Mynd/Anton
Haraldi Frey Guðmundssyni og félögum hans í Start mistókst að tryggja félaginu sæti í bikarúrslitaleiknum í fyrsta sinn í sögu félagsins þegar liðið tapaði 0-1 á móti Aalesund í kvöld í seinni undanúrslitaleik norsku bikarkeppninnar. Aalesund, sem var á heimavelli í þessum leik, mætir Birki Má Sævarssyni og félögum í Brann í bikarúrslitaleiknum.

Eina mark leiksins var slysalegt sjálfsmark Haraldar á 40. mínútu. Demar Phillips, framherji Aalesund, átti þá skot sem Alexander Lund Hansen, markvörður Start, varði en boltinn fór í Harald og þaðan í markið.  

Haraldur Freyr kom til Start í lok ágúst en hann var fyrirliði Keflavíkurliðsins í sumar. Haraldur var þarna að mæta sínum gömlu félögum í Aalesund en hann lék 88 leiki fyrir félagið á árunum 2005 til 2009.

Þetta er í annað skiptið á þremur árum sem Aalesund kemst alla leið í bikarúrslitaleikinn en liðið varð bikarmeistari árið 2009 eftir sigur á Molde í vítakeppni í úrslitaleiknum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×