Handbolti

Kristján: Hefur verið basl að púsla liðinu saman

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Andstæðingar Kristjáns Arasonar, þjálfara FH, virðast hafa mikla trú á Hafnfirðingnum því þeir spá að FH muni verja Íslandsmeistaratitil sinn í vetur.

"Ég átti von á því að okkur yrði spáð einu af þrem efstu sætunum. Hvort að okkur yrði spáð titli er annað mál. Ég bjóst líka við því að Fram yrði nær okkur. Ég held annars að deildin verði jafnari en í fyrra," sagði Kristján við Vísi á kynningarfundi N1-deildarinnar í dag.

Það hafa orðið miklar breytingar á liði FH milli ára en leikmenn eins og Ólafur Guðmundsson, Logi Geirsson, Pálmar Pétursson og Sigurgeir Árni Ægisson eru horfnir á braut.

"Það hefur verið basl að púsla liðinu saman. Mér finnst við ekki vera komnir nema svona 70-80 prósent á leið. Við eigum töluvert inni. Menn eru enn að læra inn á hvorn annan," sagði Kristján sem hefur á móti fengið leikmenn eins og Andra Berg Haraldsson, Ragnar Jóhannsson og Hjalta Þór Pálmason.

Kristján segir að markmiðið sé að keppa um titilinn rétt eins og í fyrra.

"Ég tel að við séum með flottan mannskap sem geti keppt um titilinn. Fyrsta markmiðið er samt að komast í úrslitakeppnina því mér finnst sex lið vera að keppa um þessi fjögur sæti í úrslitakeppninni."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×