Fótbolti

Elísabet heldur áfram með Kristianstad næsta sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elísabet Gunnarsdóttir.
Elísabet Gunnarsdóttir. Mynd/Pjetur
Elísabet Gunnarsdóttir hefur skrifað undir nýjan samning við Kristianstad og verður áfram þjálfari sænska liðsins. Elísabet er að klára sitt þriðja tímabil með Kristianstad en liðið er nú í 6. sæti deildarinnar með 31 stig í 19 leikjum. Þetta kemur fram í staðarblaðinu í Kristianstad.

Elísabet fór til Kristianstad fyrir tímabilið 2009 en hún gerði Valskonur fjórum sinnum að Íslandsmeisturum á árunum 2004 til 2008.

Kristianstad endaði í 10. sæti á fyrsta tímabilinu hennar með liðið 2009 og endaði í 9. sæti í fyrra eftir að hafa gefið nokkuð eftir á lokasprettinum.

Elísabet er með fjóra íslenska leikmenn hjá sér í Kristianstad en þar spila Margrét Lára Viðarsdóttir, Erla Steina Arnardóttir, Sif Atladóttir og Guðný Björk Óðinsdóttir. Þær eru vanalega allar í stórum hlutverkum í liðinu og Margrét Lára hefur skorað 12 mörk í 18 leikjum á þessu tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×