Fótbolti

Rúrik: Þjálfari OB á sína eftirlætis leikmenn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rúrik Gíslason í leik með OB.
Rúrik Gíslason í leik með OB. Nordic Photos / Getty Images
Landsliðsmaðurinn Rúrik Gíslason er ósáttur við þjálfara sinn hjá OB, Henrik Clausen, og segir hann ekki velja bestu leikmennina í liðið.

Samkvæmt frétt sem birtist í Tipsbladet er Rúrik ósáttur við að þjálfarinn virðist frekar velja leikmenn í liðið sem honum líki betur við utan vallar - fremur að en að velja sitt öflugasta lið hverju sinni.

„Mér líður eins og það skiptir engu máli hvort ég spili vel eða illa þegar ég fæ tækifæri,“ er haft eftir Rúrik. „Ég verð samt áfram á bekknum.“

„Ég ætla ekki að dvelja frekar við þetta. Ég bara tel að hann eigi sína eftirlætis leikmenn og það er ljóst að ég er ekki einn af þeim.“

„Ég er 23 ára gamall og verð að spila eins mikið og ég mögulega get. Ef þjálfaranum líkar ekki við mann verður maður að fara eitthvað annað. Það ætti að vera sanngjörn samkeppni um stöður í byrjunarliðinu.“

„Ég vil þó taka skýrt fram að ég er ekki að reyna að losna frá OB með öllum tiltækum ráðum. Ég tel að ég geti enn bætt mig í OB. En ég þarf að fá að spila til að halda áfram að bæta mig.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×