Fótbolti

Halmstad tapaði síðasta heimaleiknum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jónas Guðni í leik með KR árið 2008.
Jónas Guðni í leik með KR árið 2008. Mynd/Arnþór
Jónas Guðni Sævarsson var í byrjunarliði Halmstad sem tapaði í kvöld fyrir Djurgården, 3-1, á heimavelli í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Halmstad hefur gengið illa á tímabilinu og er langneðst í deildinni með fjórtán sti, ellefu á eftir næsta liði, þegar ein umferð er eftir. Það var því ljóst fyrir nokkru síðan að liðið væri fallið í B-deildina.

Leikurinn í dag var sá síðasti á heimavelli og lofaði byrjunin góðu þar sem Halmstad komst yfir á 24. mínútu. Djurgården skoraði tvívegis á næstu ellefu mínútum og gerði svo út um leikinn í seinni hálfleik.

Jónas Guðni hefur komið við sögu í 22 leikjum á tímabilinu, þar af 21 sem byrjunarliðsmaður. Hann er nú á sínu þriðja ári hjá félaginu.

Guðjón Pétur Lýðsson lék allan leikinn þegar að meistararnir í Helsingborg töpuðu fyrir Gefle á útivelli, 2-0. Helsinborg tryggði sér titilinn fyrir nokkru og hefur því ekki að miklu að keppa.

Þá vann GAIS sigur á IFK Gautaborg á heimavelli, 1-0. Hjálmar Jónsson var í byrjunarliði Gautaborgar en Hjörtur Logi Valgarðsson á meðal varamanna og kom ekki við sögu. Theodór Elmar Bjarnason var ekki í leikmannahópi liðsins. IFK Göteborg er í sjöunda sæti deildarinnar með 42 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×