Handbolti

Kristinn: Karakter stig hjá báðum liðum

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Kristinn Guðmundsson og Erlingur Richardsson þjálfarar HK.
Kristinn Guðmundsson og Erlingur Richardsson þjálfarar HK. Mynd/Vilhelm
Kristinn Guðmundsson þjálfari HK var líkt og kollegi hans hjá FH, Einar Andri, sáttur og ósáttur í senn við 30-30 jafntefli HK og FH í kvöld.

„Við höfum frumkvæðið þegar það fór að líða að lokum leiksins og áttum töluvert tækifæri að koma okkur í þrjú mörk og ná góðum tökum á leiknum en við hentum því frá okkur. Heilt yfir var þetta væntanlega karakter stig hjá báðum liðum. Við förum nokkuð sáttir frá þessum leik og sérstaklega að berja okkur í gegnum síðustu sóknina,“ sagði Kristinn en HK jafnaði metinn úr vítakasti er leiktíminn var liðinn.

„Við lentum í dálitlum vandræðum þegar Óli Bjarki var klipptur út og vorum að mjatla svolítið mikið. Við sköpuðum okkur færi sem við nýttum ekki en það var ljúft að sjá síðustu sóknina ganga upp. Við lögðum upp að nota Ólaf Bjarka sem beitu og það gekk upp. Það gaf okkur vítið sem við jöfnuðum úr. Við erum mjög ánægðir með margt en auðvitað er hægt að laga ýmislegt,“ sagði Kristinn.

„Það var frábær karakter í liðinu. Við vorum agaðir nánast allan leikinn sóknarlega og miklu áræðnari en við höfum verið. Þetta er lang besti leikurinn sem við höfum spilað hingað til í vetur.“

„Það er margt sem má laga varnarlega úr þessum leik. Við þurfum að þétta okkur og skoða það. Við freistuðumst til að halda áfram í 5-1 vörninni í stað þess að bakka í 6-0 og fórum frekar í að sækja út í 3-2-1, það munaði minnstu að það tækist. Við vorum klaufar að nýta ekki dauðafæri og annað sem komu út úr því. Þetta var frábær leikur og hefur ekki svikið nokkurn áhorfanda,“ sagði Kristinn að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×