Handbolti

Birkir Ívar: Ég var fyrir í dag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Birkir Ívar, til vinstri, átti góðan leik í dag.
Birkir Ívar, til vinstri, átti góðan leik í dag. Mynd/Valli
„Það er stundum engin mikil kúnst við það að verja víti - kannski meira að vera bara fyrir. Og ég var svolítið fyrir í dag,“ sagði Birkir Ívar Guðmundsson, markvörður Hauka, í léttum dúr. Hann átti stóran hlut í sigri sinna manna á Akureyri í kvöld, 23-22.

Birkir Ívar varði 21 skot, þar af fjögur af þeim sjö vítaköstum sem hann fékk á sig í leiknum auk þess sem eitt til viðbótar hafnaði í slánni. Leikurinn var þó í járnum síðustu mínúturnar eftir að Haukar höfðu verið skrefi framar lengst af í leiknum.

„Þetta var einn af þessum leikjum sem æxlaðist svona. Það var lítið skorað og það var ekki mikill handbolti í þessu. En mér er alveg sama, við unnum og það er það sem skiptir máli,“ sagði Birkir Ívar.

„Mér fannst Akureyri spila aðeins betur ef eitthvað er. Heppnin var þó stundum með okkur og þetta er bara einn af þessum leikjum sem erfitt er að útskýra. Mér fannst við ekki eiga það sérstaklega mikið inni að vinna þennan leik, en það er ekki alltaf spurt að því.“

Hann sagði varnarleik sinna manna ekkert sérstaklega góðan í kvöld. „Við vorum nokkuð staðir og það vantaði grimmdina. Hún kom stundum upp en í allt of stuttan tíma. En mótið er ungt og við erum með ungt lið sem þarf að slípa betur saman.“

„Við erum með marga unga og efnilega stráka sem geta verið góðir ef sá gállinn er á þeim en þeir geta líka verið svolítið óstöðugir í sínum leik. Það er gallinn - við getum átt góða leiki bæði í vörn og sókn en svo átt slæma leiki líka inn á milli.“

„Stöðugleikinn mun skila sér með góðum æfingum, vinnu og elju - og þetta er allt að koma.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×