Danska tennisstjarnan Caroline Wozniacki er þegar búin að tryggja sér efsta sætið á heimslistanum út þetta ár og þetta verður því annað árið í röð sem Wozniacki endar í efsta sæti heimslita alþjóða tennissambandsins.
„Það er mikill munur á því að enda númer eitt eða tvö á heimslistanum. Ég er ekki með nákvæma tölu á hreinu en hún er með bónusa í samningum sínum við styrktaraðila sína og þeir geta skipt milljónum," sagði John Tobias, umboðsmaður Wozniacki við Politiken.
Caroline Wozniacki hafði betur í baráttunni um efsta sæti heimslistans við hina rússnesku Mariu Sharapovu. Maria Sharapova meiddist á lokasprettinum og sú danska græddi á því.
„Caroline er númer eitt í heiminum í næst vinsælustu íþróttinni á eftir fótbolta. Það er stór og mikill titill," sagði Tobias og hann segir að Wozniacki sé vinsæl meðal þeirra sem vilja fá nafn hennar á sínar vörur.
„Tennis er íþrótt þar sem konurnar eiga auðveldara með að ná athygli heldur en karlarnir. Það þýðir að allir hafa áhuga á því að fá hana til að auglýsa sig. Út frá markaðsfræðunum þá gefur þetta Caroline mjög mikla möguleika," segir John Tobias.

