Fótbolti

„Er alla­vega engin þreyta í mér“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Dagný er klár í slaginn.
Dagný er klár í slaginn. Vísir/Stöð 2

„Við Alexandra (Jóhannsdóttir) vorum náttúrulega í banni svo ég er mjög fersk og líður vel. Það er allavega engin þreyta í mér,“ sagði Dagný Brynjarsdóttir kímin er hún ræddi við Stöð 2 og Vísi fyrir leik Íslands og Sviss í Þjóðadeild kvenna.

Dagný var í leikbanni og tók því ekki þátt í markalausa jafnteflinu gegn Noregi á dögunum. Hún er því meira en til í slaginn þegar Ísland mætir Sviss í dag.

„Mér fannst við eiga góðan leik. Óheppnar að nýta ekki eitthvað af þessum færum, fengum fullt af færum til að klára leikinn. Í heild sinni mjög flottur leikur.“

„Við fórum yfir það sem var gert vel á móti Noregi og hvað hefði mátt fara betur. Höfum farið aðeins yfir Sviss, er náttúrulega stutt síðan við spiluðum við þær síðast. Það verður öðruvísi leikur, að öllum líkindum spila þær annað leikkerfi. Miðjan var ef til vill ansi opin hjá Norsurum á meðan Sviss er með mjög þétta miðju og þá með meira svæði út á köntunum svo þetta verður aðeins öðruvísi leikur. Svæðin verða opin annarsstaðar,“ sagði Dagný aðspurð hvað hefði helst verið farið yfir eftir Noregsleikinn.

Klippa: Dagný Brynjarsdóttir: „Er allavega engin þreyta í mér“

Verður Dagný í byrjunarliðinu gegn Sviss?

„Ég bara veit það ekki ef ég á að vera alveg hreinskilin. Miðjumennirnir spiluðu vel í seinasta leik svo við verðum að sjá hvað verður.“

Leikur Íslands og Sviss hefst klukkan 16.45. Verður leikurinn í beinni textalýsingu hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×